Liðsmenn knattspyrnuliðsins FC Sækó æfðu á dögunum undir stjórn Þorsteins Hreiðars Halldórsson, þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í fóbolta á Laugardalsvellinum.

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur undanfarin misseri verið í samstarfi við knattspyrnufélagið FC Sækó en sérstakt vitundarátaki undir heitinu "Geðveikur fótbolti með FC Sækó" var sett á laggirnar í vor.  Verkefnið mun standa í eitt ár hið minnsta.

Knattspyrnuverkefnið FC Sækó "Geðveikur fótbolti“ byrjaði í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans. FC Sækó knattspyrnufélag var stofnað árið 2014 og er það skipað notendum geð- og velferðarkerfisins, starfsmönnum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið.

Tilgangur FC Sækó er að efla og auka virkni notendahóps fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum. Markmið FC Sækó er fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman.

Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styðjum við hvort annað og drögum við úr fordómum. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með FC Sækó, konur og karlar, fólk sem tengist geð- eða velferðarsviði og/eða úrræðum því tengdu eða aðrir.

Hlutverk KSÍ í samstarfinu verður að vekja athygli á og styðja við starfsemi FC Sækó með ýmsum hætti og að vekja athygli á því hvernig þátttaka í fótbolta, eða skipulögðum íþróttum almennt, getur haft jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með geðraskanir.

Hægt er að kynna sér starfsemi FC Sækó hérna: Facebook-síða FC Sækó