Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann í kvöld 1-0 sigur á Venesúela í æfingaleik sem fór fram í Austurríki. Um afar bragðdaufan leik var að ræða, leik sem markaði endurkomu Arons Einars Gunnarssonar, Alfreðs Finnbogasonar og Guðlaugs Victors Pálssonar í landsliðið.

Jafn­ræði var með liðunum fyrsta korterið í leiknum og án þess þó að á­kjósan­leg færi litu dagsins ljós.

Arnar Þór, lands­liðs­þjálfari Ís­lands neyddist síðan til að gera breytingu strax á 19. mínútu leiksins þegar að Arnór Sigurðs­son þurfti að fara meiddur af velli eftir að hafa lent í groddara­legri tæk­lingu frá varnar­manni Venesúela. Mikael Egill Ellerts­son kom inn í hans stað.

Venesúela fékk á­kjósan­legt færi á 21. mínútu þegar að Rúnar Alex átti slæma sendingu út frá marki Ís­lands sem Salomín Rondón komst inn í. Skot hans var hins vegar víðs fjarri.

Það var á þessum tíma­punkti leiks sem leik­menn Venesúela náðu að­eins meira taki á leiknum og komu sér í að minnsta kosti tvisvar sinnum í fína stöðu. Þeir pressuðu ís­lenska liðið hátt uppi á vellinum.

Venesúela þurfti einnig að gera breytingu á sínu liði á 39. mínútu þegar Ya­hon Cumana fór meiddur af velli. Inn í hans stað kom Yohan Cumana.

Fyrri hálf­leikurinn var hins vegar hálf­leikur fárra tíðinda og fátt um fína drætti hjá báðum liðum. Það var marka­laust þegar dómarinn flautaði til hálf­leiks.

Svipað var uppi á teningnum fyrsta korterið í síðari hálfleik og þá greip Arnar Þór til þess ráðs að gera fjórfalda breytingu þar sem að meðal annars Alfreð Finnbogason og Birkir Bjarnason fóru af velli.

Langbesta færi leiksins kom á 65. mínútu. Guðlaugur Victor átti fínustu fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Jón Dagur Þorsteinsson skallaði boltann niður og fyrir Mikael Egill milli vítateigslínu og markteigs en skot hans var langt frá því að vera nægilega gott.

Ísland fékk hins vegar vítaspyrnu 86. mínútu þegar brotið var Þóri Jóhanni Helgasyni. Ísak Bergmann steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Þetta reyndist sigurmark leiksins, 1-0 sigur Íslands staðreynd. Næsti leikur íslenska landsliðsins er á útivelli gegn Albaníu í Þjóðadeild UEFA á þriðjudaginn næstkomandi.