Ungstirnið Ansu Fati sem brotið hefur sér leið inn í aðallið Barcelona í upphafi leiktíðarinnar hefur fengið spænskan ríkisborgararétt og getur því leikið með spænsku landsliðunum í framtíðinni.

Fati er fæddur í október árið 2002 í Gíneu-Bissá en hann sleit barnsskónum þar í landi en sex ára gamall flutti hann til Herrera sem er smábæi á Suður-Spáni.

Eftir að hafa búið í 10 ár á Spáni var mögulegt fyrir Fati að sækja um ríkisborgararétt þar í landi og innanríkisráðuneyti Spánar veitti honum spænskan ríkisborgararétt í dag.

Þessi 16 ára gamli framherji á auk fæðingarlands síns og heimalandsins möguleika á því að leika fyrir landslið Portúgals þar sem afi hans og amma eru portúgölsk.

Fati varð yngsti leikmaður til þess að skora í deildarleik fyrir Barcelona þegar hann skoraði gegn Osasuna í þriðju umferð spænsku efstu deildarinnar en hann hefur skorað tvö mörk í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað í deildinni á tímabilinu.

Þá varð hann yngsti leikmaður í sögu félagsins til þess að leika í Meistaradeild Evrópu þegar hann hóf leikinn í markalausu jafntefli Barcelona á móti Borussia Dortmund í fyrstu umferð í riðlakeppni keppninnar í vikunni.