Fjallað er um mál knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar á vefmiðlinum The Athletic í morgun. Tæpt ár er síðan Gylfi var handtekinn af lögreglu, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann er nú laus gegn tryggingu en næstu skref í málinu verða ákvörðuð 16. júlí næstkomandi.

Það er Daniel Taylor, blaðamaður The Athletic sem skrifar um málið. Hann segir Gylfa nú búa á öðrum stað en þar sem hann var þegar að lögreglan bankaði upp á hjá honum í fyrra. Hann búi nú í svokölluðu öryggishúsi (e.safe house).

,,Hann spilar ekki golf með liðsfélögunum, fær sér ekki kaffi á kaffihúsi með þeim. Hann hefur verið fluttur á leynilegan stað og lögreglan heldur rannsókn sinni áfram."

Daniel segist hafa upplýsingar um að fartölva Gylfa hafi verið tekin af honum. Þá hafi borist upplýsingar um að búið sé að teipa yfir þakglugga á húsinu sem Gylfi búi nú í til að koma í veg fyrir að hægt sé að taka myndir með dróna í gegnum þá.

Janframt segir Daniel að Everton, félagslið Gylfa hafi hjálpað til við að finna umrætt öryggishús en að enginn hjá Everton vilji tala um það.

Næstu skref í málinu verða tekin 16. júlí næstkomandi. Rannsókn lögreglu hefur tekið langan tíma og alls hefur Gylfa verið veitt lausn gegn tryggingu fimm sinnum. Þá verða liðnir nákvæmlega 12 mánuðir síðan hann var handtekinn.