Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði öðrum leik sínum í röð á Evrópumótinu í handbolta í gær þegar Slóvenar unnu 30-27 sigur á Íslandi. Strákarnir okkar eru því án stiga þegar þrír leikir eru eftir af milliriðlinum og sæti í undanúrslitunum nánast úr sögunni. Þá verður erfitt fyrir íslenska liðið að tryggja sér þátttökurétt í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana úr þessu en ásamt Evrópumeisturunum komast tvö efstu liðin í umspilið sem hafa ekki þegar tryggt sér þátttökurétt. Landsliðið fær ekki langan tíma til að dvelja á þessu tapi þar sem leikur gegn spútnikliði Portúgals bíður á morgun.

Sóknarleikur Íslands var lengi af stað og voru fyrstu mínúturnar keimlíkar því sem íslenska liðið sýndi á upphafsmínútunum gegn Ungverjum. Slóvenar nýttu sér liðsmuninn þegar Íslendingar léku manni færri vel og náðu fimm marka forskoti, 7-2, strax á tíundu mínútu leiksins.

Leikhlé Guðmundar Guðmundssonar á 8. mínútu virtist vekja leikmenn íslenska liðsins til lífsins. Ólafur Andrés Guðmundsson fór fyrir sókn íslenska liðsins næstu mínúturnar þegar Ísland jafnaði metin á tíu mínútna kafla þar sem íslenska liðinu tókst að auka hraðann. Ísland náði forskoti í eina skiptið í leiknum skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en Slóvenar náðu að stela forskotinu með tveimur síðustu mörkum hálfleiksins.

Annan leikinn í röð hélt íslenska liðið sjó fyrstu mínútur seinni hálfleiksins en þurfti að horfa á eftir andstæðingum sínum um miðbik seinni hálfleiks. Á sautján mínútna kafla missti Ísland jafnan leik í sex marka forskot og Ísland hefði aðeins tíu mínútur til að jafna metin.

Íslandi tókst að minnka muninn í þrjú mörk á lokamínútum leiksins en nær komust strákarnir ekki og þriggja marka sigur Slóvenanna staðreynd.

Slóvenska liðið reyndist einfaldlega sterkara í gær og fór miðjumaðurinn Dean Bombac þar fremstur í flokki. Bombac fór oft illa með íslensku vörnina, bæði þegar kom að markaskorun og að mata liðsfélaga sína því hann kom að 21 marki hjá slóvenska liðinu. Slóvenar eru með fullt hús stiga eftir sigurinn á Íslandi og eru líklegir til frekari afreka á mótinu.