Málaframvindan tekur mið af tegundum meintra brota sem og staðsetningu saksóknaraembættisins en „póstnúmera-lottóið“ getur orðið til þess að tímarammi sambærilegra mála sé ekki alltaf sá sami,“ segir Dino Nocivelli, lögfræðingur í Bretlandi, í svari til Fréttablaðsins um mál knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Nocivelli, sem sérhæfir sig meðal annars í málum er snúa að meintu kynferðisofbeldi gegn ólögráða einstaklingum, getur ekki tjáð sig beint um mál Gylfa vegna laga í Bretlandi. „Það mætti vonast eftir niðurstöðu um næstu skref fyrir lok mars,“ segir hann þó út frá fyrri dæmum.
Gylfi Þór var handtekinn 16. júlí 2021, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Stuttu síðar var hann látinn laus gegn tryggingu og hefur verið það síðan.
Lögreglan hefur lokið rannsókn sinni og er málið nú komið inn á borð saksóknaraembættis bresku krúnunnar sem fer yfir gögn málsins og ákvarðar næstu skref.
Hvað svo?
Nú hefur Gylfi Þór í langan tíma verið í farbanni og laus gegn tryggingu. Dino telur að ekki verði tekið tillit til þess fari svo að ákært verði í málinu og Gylfi fundinn sekur.
„Ég tel svo ekki vera,“ segir Dino. Með væntanlegri ákvörðun saksóknaraembættisins geti framvindan verið á tvo vegu. Málið geti verið fellt niður eða það ákveðið að ákært verði í því.
„Ef ákært er í málinu myndu næstu skref vera þau að þeim stefnda yrði gefin kostur á að bregðast við. Ef hann segist saklaus verður fundin dagsetning fyrir dómsmál.
Ef ekki verður ákært í málinu mun meintur þolandi eiga kost á að áfrýja þeirri niðurstöðu. Ef áfrýjunin skilar ekki árangri verður málið fellt niður."

Rannsóknartíminn ekki óeðlilegur
Af samfélagsumræðunni í tengslum við málið að dæma mátti sjá að margir furðuðu sig á löngum rannsóknartíma lögreglunnar í Greater Manchester í umræddu máli en Dino segir ekkert óeðlilegt við tímalengd rannsóknarinnar sem slíka.
„Því miður getur refsiréttarkerfið á Englandi verið ansi hægfara og hefur þróunin verið í þá vegu undanfarið,“ svarar Dino og segir margar ástæður fyrir því.
,,Það eru fjölmargar ástæður, allt frá eftirmálum vegna kórónuveirufaraldursins til vanfjármögnunar í málaflokki lögreglunnar, ákæruvaldsins, sakamáladómstóla og lagalegrar aðstoðar. Ástæður mögulegra tafa geta þó ekki verið notaðar sem afsökun fyrir áframhaldandi töfum á réttlæti fyrir alla þá aðila sem eru hluti af sakamálum."
Réttlæti frestað sé réttlæti hafnað
Það er mat Dino að frestað réttlæti sé oft réttlæti hafnað og segir hann tafir á niðurstöðu í svona málum vera áhyggjuefni sem hafi áhrif, bæði á meinta þolendur sem og sakborninga.
,,Þær tafir sem til vegna rannsóknar refsiréttarkerfisins er áhyggjuefni fyrir alla sem eiga í hlut. Því miður er þetta að verða að sífellt algengara og versnandi vandamál.
Ég er á þeirri skoðun að frestað réttlæti sé réttlæti hafnað og að áhrifin á meinta þolendur og eftirlifendur kynferðisofbeldis geti verið mjög skaðleg þar sem þessi staða þýðir að þau fá ekki fulla meðferð við sínum málum.
Þar af leiðandi geta þau ekki haldið áfram með líf sitt á meðan mögulegt sakadómsmál hangir yfir þeim og málinu ekki lokið. Þá er ég einnig meðvitaður um að slík töf hefur einnig á sakborninga í málum sem þessum."