Langhlauparinn Mo Farah mun taka þátt í Lundúnamaraþoninu í október. Verður þetta hans fyrsta heilmaraþon síðan 2019.

Árið 2020 sneri Farah sér að hlaupabrautinni eftir að hafa einbeitt sér eingöngu að maraþoni í þrjú ár. Nú snýr hann sér aftur að maraþoninu.

„Það vita allir hversu mikið ég elska Lundúnamaraþonið og ég er mjög spenntur fyrir því að snúa aftur 2022,“ segir Farah við BBC.

„Mér líður eins og það sé langt síðan ég tók þátt í heilmaraþoni síðast árið 2019 svo ég get ekki beðið eftir að prófa mig á móti bestu maraþonhlaupurum heims og njóta stemningarinnar sem er í Lundúnum á maraþondegi. Þar til mun ég æfa vel.“

Farah náði sínum besta árangri í Lundúnamaraþoni árið 2018. Þá var hann þriðji í mark.

Þá á hann metið í Bretlandi yfir besta tímann í heilmaraþoni. Það var í Chicago-maraþoninu árið 2018.