Sigurjón Ernir Sturluson einkaþjálfari og eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Ultra form ætlar í kvöld ásamt þeim Halldóri Ragnari Guðjónssyni og Bergi Vilhjálmssyni að tækla Concept Iron Man en það eru 50 kílómetrar á skíðavél, 100 kílómetrar á róðravél og 200 kílómetrar á hjóli í Ultra form í Grafarvogi. Þeir hefjast handa klukkan 19 í kvöld og stefna á að vera búnir innan 24 klukkustunda.
Þetta gera þeir til styrktar Krafti því þeir vilja styðja við bakið á þeim fjölmörgu sem eru að berjast við krabbamein.
„Við þekkjum allir fólk í kringum okkur sem hefur eða er að berjast við krabbamein og viljum sýna stuðning í verki með þessari áskorun. Pabbi minn dó úr krabbameini en það er ekkert endilega aðalástæðan. Við þekkjum allir einhvern sem deyr úr krabbameini,“ segir Sigurjón.

Fara allir alla leið
Hann segir að hugmyndina hafi hann fengið frá Einari Hansberg sem hefur nokkrum sinnum efnt til álíka viðburða og gerði þessa sömu áskorun fyrir nokkrum árum.
„Ég spjallaði við hann í hlaðvarpinu okkar í Ultra form og þá kom þetta upp. Mig hefur alltaf langað að taka þessa áskorun. Þetta er vel fyrir utan þægindarammann. Ég keppi mikið í krefjandi hlaupum og svoleiðis en þetta er eitthvað sem mig langaði að tikka í boxið með og svo er alltaf gott að geta styrkt gott málefni um leið,“ segir Sigurjón.
Hann segir að þeir byrji klukkan 19 á að taka 50 kílómetra á skíðavélinni og svo þegar því er lokið hefjist þeir handa við róðurinn og endi svo á 200 kílómetra hjóli.
„Þetta eru þrjú tæki og við gerum þetta allir. Við verðum hlið við hlið og klárum allir þessar vegalengdir,“ segir Sigurjón og að þeir stefni á að klára þetta á tuttugu tímum.
„En svo þegar áskorunin er byrjuð getur margt gerst og það getur eitthvað hægt á okkur.“
Spurður um mat á meðan segir hann að þeir ætli sér að fókusa á heilnæman mat á meðan áskoruninni stendur og séu með mat frá bæði Spírunni og Prepp barnum.
„Mat með tengingu við náttúruna. Það er svo margt sem við borðum sem veldur þessum kvillum og það er eitthvað sem við viljum sýna. Að það sé hægt að gera svona alvöru verkefni með alvöru næringu.“

Allir velkomnir
Áskorunin er öllum opin og er hægt að skrá sig til leiks í skjali hér en svo segir Sigurjón að fólki sé líka velkomið að líta við og spjalla og hvetja þá áfram.
„Það getur hver sem er komið en ég geri ráð fyrir að það verði til helminga, fólk úr stöðinni og svo aðrir,“ segir Sigurjón.
Hann á von á því að það verði fjölmennt til að byrja með en að svo fækki eflaust því þeir verða með „rassinn og bakið í fólk“ fyrstu klukkutímana í skíðavélinni.
„En svo um morguninn á morgun og yfir daginn gerum við ráð fyrir fólki með okkur,“ segir Sigurjón.
Hann segir að þeir muni taka klukkutíma í senn og ætli sér svo að reyna að borða stærri máltíðir á um þriggja klukkustunda fresti.
Ertu með skemmtileg plön annan kvöld?
„Ég held ég fari bara snemma í háttinn. Það verður ekki meira en það,“ segir hann og hlær.
Reikningsupplýsingar ef fólk vill styrkja Kraft:
Reikningsnúmer hjá Kraft:
Kennitala: 571199-3009
Bnr: 327-26-112233
AUR: @kraftur