Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður kvennaliðs Vals í knattspyrnu, er barnshafandi og leikur þar af leiðandi ekki meira með Valsliðinu á yfirstandandi leiktíð. Þetta kom fram í sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Fanndís sem varð þrítug síðasta haust á von á barni með kærasta sínum Eyjólfi Héðinssyni sem leikur með Stjörnunni en landsliðskonan ber fyrsta barn sitt undir belti.

Framherjinn hefur spilað með Val síðan hún gekk til liðs við félagið frá franska liðinu Marseille sumarið 2018 en hún skoraði sjö deildarmörk þegar Valur varð Íslandsmeistari í fyrra.

Hún var fjarverandi í síðustu þremur leikjum Vals og er ekki í leikmannahópi Hlíðarendaliðsins sem er að leika við Breiðablik í toppslag Íslandsmótsins þessa stundina. Nú er komin skýring á fjarveru og er sem betur fer um gleðitíðindi að ræða.