Ian Jeffs var kynntur sem aðstoðarþjálfari Jóns Þórs Haukssonar á blaðamannafundi KSÍ í gær þegar tilkynnt var að Jón Þór myndi taka við kvennalandsliðinu af Frey Alexanderssyni.

„Tilfinningin er fyrst og fremst góð, ég er auðvitað bara spenntur. Það er draumur allra að fá að vinna í tengslum við landslið og ég er stoltur af því að hafa fengið þetta tækifæri,“ sagði Ian sem hefur dvalið á Íslandi í fimmtán ár en átti eflaust ekki von á því að verða landsliðsþjálfari einn daginn þegar hann samdi við ÍBV árið 2003.

„Það var ekki beint ofarlega á lista,“ sagði hann hlæjandi.

Ian hreifst strax af hugmyndum Jóns á fyrsta fundi þeirra.

„Ég þekkti hann frá þjálfaranámskeiðum KSÍ og var búinn að heyra góðar sögur frá leikmönnum sem hafa unnið með honum. Þegar við hittumst á dögunum leist mér vel á þetta,“ sagði Jeffs og hélt áfram:

„Við erum með svipaðar skoðanir þegar kemur að fótbolta og þegar fundinum lauk var ég vongóður um að við myndum vinna saman. Ég fann það á fimm mínútum að við gætum auðveldlega unnið saman.“