Ótrúlegt atvik átti sér stað á Anfield, heimavelli enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool í gær þegar að lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fór fram. Þegar að Liverpool komst í stöðuna 2-1 gegn Wolves fóru að berast falsfréttir um leikvanginn þess efnis að Aston Villa hefði jafnað metin gegn Manchester City og að titillinn væri því á leið til Liverpool.

Stór hluti stuðningsmanna Liverpool greip þessar fréttir og út brutust mikil fagnaðarlæti sem lýsandi Sky Sportst á leiknum skildi ekkert í því Aston Villa hafði ekki jafnað metin gegn City heldur var staðan þar 3-2 City í vil og titillinn því á leið í ljósbláa hluta Mancesterborgar.

,,Það eru mikil fagnaðarlæti hér en við vitum ekki af hverju vegna þess að Manchester City er enn þá yfir gegn Aston Villa," mátti heyra lýsanda Sky Sports segja í útsendingunni.

Svo fór að titillinn endaði hjá Manchester City en myndband af atvikinu á Anfield má sjá hér fyrir neðan.