Fallið hefur verið frá einni kæru á hendur leikmanni sem spilar með liði í ensku úrvalsdeildinni og var í byrjun júlímánaðar handtekinn, grunaður um nokkur mismunandi brot gegn konum, þar á meðal nauðgun. Frá þessu greinir Metropolitan lögreglan í Bretlandi í yfirlýsingu.

Maðurinn var í byrjun júlímánaðar handtekinn á heimili sínu í Barnet í Norður-Lundúnum. Þaðan var hann fluttur í gæsluvarðhald og handtekinn að nýju daginn eftir þar sem nýjar ásakanir litu dagsins ljós.

Á meðan hann var í gæsluvarðhaldi var hann handtekinn vegna tveggja nauðganna sem eiga að hafa átt sér stað í apríl og júní á síðasta ári. Brotin eiga að hafa verið framin á konum á þrítugsaldri samkvæmt upplýsingum sem lögregluyfirvöld gáfu frá sér á sínum tíma.

Alls voru kærurnar þrjár talsins en nú hefur verið fallið frá einni þeirra sem snýr að meintu atviki sem var sagt að hafi átt sér stað í júní árið 2021. Umræddur leikmaður er nú laus gegn tryggingu fram í októbermánuð en samkvæmt fyrstu fréttum af málinu var greint frá því að hann væri landsliðsmaður landsliðs sem ætti sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í nóvember.