Ísland vann sannfærandi 4-0 sigur þegar liðið fékk Liechtenstein í heimsókn á Laugardalsvöll í áttundu umferð í undankeppni HM 2022 í kvöld.

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfarar íslenska liðsins, gerðu fjórar breytingar á byrjunarliði liðsins frá jafnteflinu gegn Armeníu í síðustu umferð undankeppninnar.

Bakverðirnir Ari Freyr Skúlason og Birkir Már Sævarsson tóku út leikbann í þessum leik og Guðmundur Þórarinsson og Alfons Sampsted leystu þá af hólmi.

Daníel Leó Grétarsson fyllti svo skarð Hjartar Hermannssonar í hjarta varnarinnar og Stefán Teitur Þórðarson kom inná miðsvæðið fyrir Guðlaug Victor Pálsson.

Leikmynd leiksins myndaðist strax í upphafi en íslenska liðið lét boltann ganga sín á milli og freistaði þess að finna glufu á þéttri fimm manna vörn Liechtenstein.

Fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós eftir sjö mínútur en þá rataði fyrirgjöf Guðmundar á kollinn á Brynjari Inga Bjarnasyni en skalli Brynjars Inga fór beint á markvörð Liechtensteins.

Eftir þolinmæðisvinnu við það að brjóta varnarmúr gestanna á bak aftur tóskst íslenska liðinu að brjóta ísinn eftir tæplega 20 mínútna leik. Íslenska liðið náði að færa boltann hratt frá hægri til vinstri.

Þar endaði boltinn hjá Jóni Degi Þorsteinssyni sem teiknaði boltann á Stefán Teit Þórðarson sem skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark með hnitmiðuðum skalla. Stefán Teitur var að spila sinn fimmta A-landsleik í þessum leik.

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp fyrsta mark Íslands í leiknum.
Fréttablaðið/Ernir
Stefán Teitur Þórðarson kom Íslandi á bragðið í leiknum.
Fréttablaðið/Ernir
Albert Guðmudsson býr sig hér undir að taka fyrra víti sitt í leiknum.
Fréttablaðið/Ernir
Albert setur hér boltann í netið af vítapunktinum.
Fréttablaðið/Ernir

Birkir Bjarnason, sem bar fyrirliðabandið líkt og í leiknum gegn Armeníu, lét svo reyna á markvörð Liechtenstein eftir um það bil hálftíma leik. Skotið var hins vegar nálægt markverðinum og var varið nokkuð auðveldlega.

Daníel Leó Grétarsson, sem var að spila í byrjunarliði A-landsliðsins í fyrsta skipti í mótsleik í þriðja landsleik sínum, fór meiddur af velli skömmu síðar. Hjörtur kom inn í varnarlínuna vegna meiðsla Daníels Leós.

Ísland fékk svo vítaspyrnu þegar 32 mínútur voru liðnar af leiknum. Skot Viðars Arnar Kjartanssonar fór þá í hönd varnarmanns Liechtenstein. Alfons átti skot rétt utan vítateigs sem var varið í aðdraganda þess að vítaspyrnan var dæmd.

Albert Guðmundsson skilaði boltanum af feykilegu öryggi í markið og skoraði þar af leiðandi sitt fimmta landsliðsmark. Mark Alberts kom á 35. mínútu leiksins þar sem vítaspyrnudómurinn var skoðaður gaumgæfilega í myndbandsdómgæsluherberginu.

Stefán Teitur og Albert voru síðan nálægt því að bæta við öðru marki sínu sitt hvoru megin við hálfleikinn en þeim brást bogalistinn í fínum stöðum.

Jón Dagur hélt uppteknum hætti við að skapa færi fyrir samherja sína í upphafi seinni hálfleiks en hann sendi þá boltann á Viðar Örn sem tókst ekki að setja boltann í netið í upplögðu marktækifæri.

Albert fann svo Viðar Örn í vítateig Liechteinstein eftir liðlega klukkutíma leik en framherjinn náði ekki að færa sér sendinguna í nyt.

Birkir Bjarnason var fyrirliði Íslands í þessum sigri.
Fréttablaðið/Ernir
Andri Fannar Baldursson kom af krafti inn á miðsvæðið.
Fréttablaðið/Ernir
Þórir Jóhann Helgason freistar hér gæfunnar úr aukaspyrnu.
Fréttablaðið/Ernir

Mínútu síðar vann Þórir Jóhann Helgason boltann í álitlegri stöðu og sótti af fullum krafti að marki Liechtenstein. Þar brá Martin Marxer fæti fyrir Þóri Jóhann rétt áður en hann komst í gott skotfæri.

Marxer var réttilega áminntur í annað skipti í leiknum fyrir brotið og þar af leiðandi vísað af velli með rauðu spjaldi. Þórir Jóhann tók aukaspyrnuna sjálfur en skotið fór í varnarvegginn.

Arnar Þór og Eiður Smári gerðu þrefalda skiptingu um miðbik seinni hálfleiks. Andri Fannar Baldursson, Mikael Egill Ellertsson og Sveinn Aron Guðjohnsen komu þá inná fyrir Þóri Jóhann, Jón Dag og Viðar Örn.

Andri Fannar stimplaði sig inn í leikinn fljótlega eftir að mætti inná völlinn en skot hans í fínu færi var mislukkað. Mikael Egill minnti svo á sig þegar tæpar 20 voru eftir. Skot Mikaels Egils var varið og Albert náði ekki að setja boltann í netið eftir að hann hafa fengið frákastið í fætur sínar.

Guðmundur Þórarinsson átti afbragðs leik í vinstri bakverðinum.
Fréttablaðið/Ernir
Alfons Sampsted fékk langþráð tækifæri í hægri bakverðinum.
Fréttablaðið/Ernir
Mikael Egill Ellertsson átti góða innkomu inn á hægri kantinn.
Fréttablaðið/Ernir

Þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir af leiknum fékk Ísland sína aðra vítaspyrnu í leiknum en Sveinn Aron nældi þá í víti. Albert skilaði boltanum aftur rétta leið af miklu öryggi.

Í kjölfar vítaspyrnunnar kom Andri Lucas Guðjohnsen inná fyrir Stefán Teit Þórðarson. Bræðurnir Andri Lucas og Sveinn Aron voru þar af leiðandi saman inni á vellinum í fyrsta skipti í A-landsleik.

Sveinn Aron fékk næsta færi Íslands til þess að bæta við marki en fyrirgjöf Alberts var þá aðeins og há fyrir hinn hávaxna sóknarmann.

Skömmu fyrir leikslok unnu svo bræðurnir, Sveinn Aron og Andri Lucas, frábærlega saman og samvinna þeirra skapaði fjórða og síðasta mark íslenska liðsins.

Sveinn Aron skallaði þá boltann fyrir fætur Andra Lucasar sem kláraði færið af stakri prýði. Þetta var annað landsliðsmark Andra Lucasar í fjórða A-landsleiknum hans. Afar falleg stund og skemmtilegur lokahnykkur á fagmannlegri frammistöðu Íslands.

Það var hjartnæm stund þegar Andri Lucas og Sveinn Aron féllust í faðma.
Fréttablaðið/Ernir

Lið Íslands var þannig skipað í leiknum:

Mark: Elías Rafn Ólafsson.

Vörn: Guðmundur Þórarinsson, Daníel Leó Grétarsson (Hjörtur Hermannsson '31), Brynjar Ingi Bjarnason, Alfons Sampsted.

Miðja: Þórir Jóhann Helgason (Andri Fannar Baldursson '65), Birkir Bjarnason (f), Stefán Teitur Þórðarson (Andri Lucas Guðjohnsen '80).

Sókn: Albert Guðmundsson, Viðar Örn Kjartansson (Sveinn Aron Guðjohnsen '65), Jón Dagur Þorsteinsson (Mikael Egill Ellertsson '65).

Ísland hefur átta stig eftir þennan sigur og situr enn í næstneðsta sæti riðilsins. Síðustu tvær leikir liðsins í undankeppninni fara báðir fram ytra. Fyrst sækir íslenska liðið Rúmeníu heim til Búkarest 11. nóvember og síðan Norður-Makedóníu í Skopje 14. nóvember.

Byrjunarlið Íslands í leiknum hlýðir á þjóðsönginn fyrir viðureignina.
Fréttablaðið/Ernir
Íslenska liðið fékk fínan stuðning í leiknum í kvöld.
Fréttablaðið/Ernir
Íslenska liðið þakkar hér fyrir stuðninginn.
Fréttablaðið/Ernir