Emil Ásmundsson var á dögunum lánaður til Fylkis frá KR. Hann fer virkilega vel af stað í búningi liðsins. Hann skoraði sín fyrstu tvö mörk gegn Grindavík í Lengjudeildinni á föstudag.

Emil fór frá Fylki til KR árið 2020 en hefur verið að glíma við meiðsli. Hann var lánaður til baka nú til að koma sér í gang.„Það er bara gaman að sjá hann spila fótbolta og spila hann vel,“ sagði Hörður Snævar Jónsson, þáttastjórnandi í markaþætti Lengjudeildarinnar.

Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur þáttarins, hrósaði Emil í hástert.

„Mér finnst Emil hafa breytt Fylkis-liðinu svolítið mikið. Mér fannst vanta þennan leikmann sem er að koma inn í teig í seinni bylgjunni, smá sóknarþunga á miðjuna. Mér finnst Unnar Steinn, Ásgeir Börkur og Arnór Gauti frekar líkir, allir djúpir og sækja í öruggu sendingarnar. Það er meiri sóknarþungi í Emil.“