Særún Ósk Pálmadóttir, sérfræðingur á sviði samskiptaráðgjafar og almannatengsla hjá KOM ráðgjöf segir starfslokatilkynningar almennt rosalega viðkvæmar. ,,Ekki bara í íþróttum heldur bara í atvinnulífinu í heild sinni. Þessar tilkynningar verður að semja með hag félagsins og umrædds leikmanns eða starfsmanns í huga og á sama tíma þarf að vernda ímyndina sem er oft það dýrmætasta sem fyrirtæki, félög og fólk eiga," segir Særún Ósk í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir Val þurfa að fara vel yfir sína ferla í kjölfarið. ,,Bæði hvað varðar aðgang að samfélagsmiðlum og einnig yfirlestur á efni sem fer þar inn sem er eitthvað sem þyrfti klárlega að laga ef ástæðan í afsökunarbeiðninni er rétt."

Umrædd tilkynning Vals sem var síðar eytt

Í afsökunarbeiðni Vals sem birtist á Twitter er sagt að ,,misheppnaður einkahúmor sjálfboðaliða," hafi valdið tilkynningunni. ,,Félagið biðst afsökunar bæði til hluteigandi aðila og Hannesar sjálfs. Haft hefur verið samband við Hannes og hann beðinn afsökunar en við vitum ekki hvernig hann tók þeirri afsökunarbeiðni," segir Særún Ósk, almannatengill í samtali við Fréttablaðið.

Út frá krísusamskiptum og krísustjórnun segir Særún að Valur þyrfti að huga betur að sínum samskiptamálum. ,,Slæm samskipti við helstu hagaðila geta haft slæm áhrif á ímynd og orðspor félagsins," segir Særún Ósk Pálmadóttir sérfræðingur á sviði samskiptaráðgjafar og almannatengsla hjá KOM ráðgjöf í samtali við Fréttablaðið.