Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur náð samkomulagi við belgíska úrvalsdeildarklúbbinn K.V. Kortrijk um að fá Luqman Hakim lánaðan út Lengjudeildina 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.
Um afar áhugaverð félagsskipti er að ráða þar sem téður Hakim var á sínum tíma á lista The Guardian yfir 60 efnilegustu leikmenn heims árið 2019.
Hakim var keyptur til K.V. Kortrijk frá heimalandi sínu, Malasíu, árið 2020 og hefur síðan komið við sögu í 2 leikjum fyrir félagið í belgísku úrvalsdeildinni. Þar á meðal í einum leik á þessari leiktíð. Þar fyrir utan hefur hann spilað fyrir u21 árs og varalið félagsins.
Njarðvíkingar tilkynntu um komu Hakim með afar veglegu myndbandi á samfélagsmiðlum sínum og hefur færsla félagsins á Twitter vakið gríðarlega athygli.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan en þegar að þetta er skrifað hafa tæp 200 þúsund orðið vör við hana, tæplega þúsund manns brugðist við henni með því að líka við hana og rúmlega 700 deilt henni.
Félagsskipti Hakim til Njarðvíkur eru því að vekja mikla athygli og þarf ekki nema að bera nýlegar færslur knattspyrnudeildar Njarðvíkur við færsluna um Hakim til að sjá það.
Luqman Hakim til liðs við Knattspyrnudeild Njarðvíkur að láni frá K.V. Kortrijk í Belgíu.
— NjarðvíkFC (@fcnjardvik) February 6, 2023
Lesa má nánar um málið hér: https://t.co/EXE1htGvpQ pic.twitter.com/pfikHfxaWT