Úrúgvæski sóknarmaðurinn Edinson Cavani gæti verið í vandræðum en hann deildi færslu stuðningsmanns Manchester United sem innihélt rasísk skilaboð á samfélagsmiðla sína eftir sigur Manchester United á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær.

Enskir fjölmiðlar telja líklegt að enska knattspyrnusambandið muni taka færlsuna til rannsóknar og mögulega verði Cavani refsað. Forráðamenn Manchester United segja að Cavani hafi ekki vitað að orðið negrito sem hefur aðra þýðingu í Suður-Ameríku hafi rasíska merkingu á Bretlandseyjum.

Eftir að Cavani fékk veður af því að færslan innihéldi rasísk skilaboð fjarlægði þessi 33 ára gamli framherji færslu sína af Instagram-síðu sinni.

Cavani kom inná sem varamaður í leiknum í gær en hann lagði upp mark Bruno Fernandes og skoraði hin mörkin tvö í 3-2 sigri liðsins. Hann hefur nú skorað þrjú deildarmörk fyrir Manchester United eftir að hafa komið á frjálsri sölu í sumar.