Hammon sem var sjálf frambærilegur leikmaður með New York Liberty og San Antonio Stars í WNBA-deildinni hefur verið hluti af þjálfarateymi San Antonio Spurs í sjö ár.

Í herbúðum San Antonio hefur hún rutt veginn fyrir konur innan NBA-deildarinnar þegar hún varð fyrsta konan til að stýra liði í sumardeild NBA.

Fyrr á þessu ári varð Becky fyrst kvenna til að stýra liði í leik í NBA-deildinni eftir að Popovich var vísað úr húsi í leik San Antonio Spurs og Los Angeles Lakers.

Þá varð hún fyrsta konan sem hafði atvinnu af þjálfarastarfi í NBA árið 2014 en þar áður hafði aðeins ein kona unnið við þjálfun í NBA, þá sem sjálfboðaliði.

Í dag eru níu konur í þjálfarastörfum innan NBA-deildarinnar.

Í samtali við Fréttablaðið fyrr á þessu ári hafði Danielle Victoria Rodriguez, aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta og karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta, orð á því að Becky væri að stíga stór skref fyrir alla kvenþjálfara.

„Þetta er mjög stórt skref í rétta átt. NBA-deildin er stærsta körfuboltadeild heims með öllum bestu leikmönnunum og bestu liðunum. Þegar kona stýrir á þessu stigi, þó að það sé ekki nema í einum leik, sýnir það að þetta sé raunhæft markmið,“ sagði Danielle meðal annars um Becky.

„Hún var sjálf frábær leikmaður og nýtir þá reynslu vel í starfi. Hún er að vinna með Popovich sem er einn af bestu þjálfurum allra tíma en hann hefur trú á henni og gefur henni tækifæri. Það hefur ekki verið sjálfsagt að konur fái þetta tækifæri sem hún hefur nú fengið og hún hefur svo sannarlega gripið það. Það þarf ekki að fara lengra en Ísland, hérna heima eru ekki margar konur sem eru aðalþjálfarar,“ segir Danielle.

Í dag eru níu konur sem eru aðstoðarþjálfarar í NBA-deildinni.

„Þetta verður stóratriði á ferilskránni hennar og opnar fjölmargar dyr. Þetta er vonandi hvatning fyrir kvenþjálfara sem stefna að því að komast að hjá atvinnumannaliðum.“