Wolfsburg tilkynnti í dag að Íslendingarslagurinn á milli toppliða þýska boltans, Wolfsburg og Bayern, færi fram á Volkswagen Arena sem tekur þrjátíu þúsund manns í sæti en ekki AOK vellinum sem tekur fimm þúsund í sæti.

Í leiknum sem fer fram í lok október mæta Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir á heimavöll Sveindísar Jane Jónsdóttur.

Liðin hafa verið í sérflokki í þýska boltanum undanfarinn áratug. Wolfsburg hefur unnið sjö meistaratitla á tíu árum og Bayern þrjá. Búist er við því að liðin tvö verði í baráttu á toppnum næsta vor.

Wolfsburg lék tvo leiki í Meistaradeild Evrópu á Volkswagen vellinum fyrr á þessu ári og þótti það heppnast vel.