Adam Ingi Bene­dikts­son þreytti á sunnudaginn frumraun sína í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta karla. Adam Ingi nýtti tækifærið vel en hann varði mark Gautaborgar í 4-0 sigri gegn Östersund.

Þessi 19 ára gamli markmaður var 16 ára þegar hann gekk til liðs við Gautaborg frá HK sumarið 2019 en hann lék einnig með FH í yngri flokkum hér heima. Adam Ingi er hins vegar fæddur í Grundarfirði.

Hjá Gautaborg lék Adam Ingi fyrst um sinn undir stjórn Hjálmars Jónssonar með U-19 ára liði félagsins og nú þremur árum seinna hefur hann spilað leik með aðalliðinu.

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég var frekar stressaður þegar ég labbaði inn á völlinn fyrir framan 15.000 áhorfendur. Ég fékk að vita það degi fyrir leik að aðalmarkmaðurinn væri tæpur vegna meiðsla og ég fengi sénsinn.

Ég náði ekki alveg að meðtaka það hversu stórt þetta væri þegar ég fékk þær fregnir og stressið byrjaði síðan að magnast á leikdegi. Svo þegar ég komst í snertingu við boltann þá hvarf skrekkurinn og ég náði að halda hreinu sem er frábært,“ segir Adam Ingi um frumraun sína.

„Þetta tækifæri er að koma fyrr en ég hélt. Ég hef verið að æfa með aðalliðinu á þessu tímabili eftir að hafa æft og spilað með U-19 ára liðinu hjá Hjálmari síðan ég kom. Þetta er mjög kærkomið og mikill heiður fyrir mig,“ segir markvörðurinn sem er þriðji markvörður hjá Gautaborg.

Sýndi sig í fjölskylduferð

„Það var í raun tilviljun að ég fengi samning hjá Gautaborg. Ég fékk að æfa með U-19 ára liði félagsins á meðan ég var í fjölskylduferð í borginni. Ég hafði samband við Hjálmar sem leyfði mér að æfa með liðinu.Í kjölfarið fór boltinn að rúlla og ég endaði á að skrifa undir hjá Gautaborg.

Félagið er með eina bestu akademíu Svíþjóðar og þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum þaðan tækifæri með aðalliðinu og selja þá svo til stærri liða.Það var stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að semja við Gautaborg. Þessi fjölskylduferð borgaði sig svo sannarlega,“ segir hann.

„Ég hef fengið fjölmörg skilaboð í dag frá vinum og ættingjum sem ég kann vel að meta. Grundfirðingar eru greinilega mjög stoltir af mér og ég hef fengið fullt af skilboðum þaðan,“ segir Adam Ingi.

„Eftir leikinn fékk ég góð viðbrögð frá þjálfaranum og markmannsþjálfaranum. Ég fékk hins vegar mun ítarlegri skýrslu frá pabba sem mætir á alla leiki hjá mér og bróður mínum sem hann kemst á en fjölskyldan flutti með mér út.

Þegar leikjunum lýkur fáum við að vita nákvæmlega hjá honum hvað gekk vel að hans mati og hvað má bæta. Það er sko ekki töluð vitleysan þar,“ segir þessi metnaðarfulli leikmaður.

Adam Ingi var ekki eini íslenski leikmaðurinn sem fékk eldskírn í sænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Næstyngstur á eftir frænda sínum

Jóhannes Kristinn Bjarnason, sem færði sig um set til Norrköping frá KR í mars síðastliðnum, lék sinn fyrsta leik fyrir sænska liðið.

Jóhannes Kristinn er 16 ára og níu mánaða gamall en hann er næstyngsti Íslendingurinn til þess að spila í atvinnumannadeild í fótbolta karla.

Frændi hans, Ísak Bergmann Jóhannesson, var 16 ára og 6 mánaða gamall þegar hann lék með sænska liðinu árið 2019.

Í október lék svo markmaðurinn Hákon Rafn Valdimarsson sína fyrstu deildarleiki í sænsku úrvalsdeildinni með Elfsborg. Það er því óþarft að kvíða framtíðinni hvað markmannsstöðuna hjá Íslandi varðar.

Elías Rafn Ólafsson hefur verið að fá leiki hjá Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni, Patrik Sigurður Gunnarsson er fastamaður hjá Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni og Jökull Andrésson ver mark Morecambe í ensku C-deildinni. Þessir markmenn eru allir í kringum tvítugsaldurinn.

Þá er Rúnar Alex Rúnarsson 26 ára gamall en hann lék á dögunum sinn fyrsta leik í belgísku efstu deildinni fyrir OH Leuven, þar sem hann er í láni frá Arsenal.

Jóhannes Kristinn Bjarnason lék sinn fyrsta leik tæplega 17 ára gamall.
Mynd/Norrköping