Úkraínski hnefaleikakappinn og heimsmeistarinn Oleksandr Usyk mætir Anthony Joshua í risabardaga um helgina. Hann segir myndbönd frá úkraínskum hermönnum sem verjast innrás Rússa í Úkraínu hvetja sig áfram til sigurs.

Usyk þurfti að yfirgefa Úkraínu í marsmánuði svo af bardaganum yrði en hann mun fara fram í Sádi-Arabíu á laugardaginn.

Hann segist fá fjöldan allan af skilaboðum og stuðningskveðjum frá úkraínskum hermönnum sem eru þessa stundina á víglínunni að verja land sitt í kjölfar innrásar Rússa.

„Fréttirnar af ástandinu eða stríðið hvetur mig ekki áfram. Það sem hvetur mig áfram er úkraínska þjóðin sem stendur í ströngu við að verja sjálfstæði okkar, frelsi. Fólk sem grípur til varna fyrir menningu okkar sem aðrir vilja rústa og útrýma. Þeir vilja ekki að við séum til lengur," segir Usyk í viðtali.

Hann segir marga hermenn hafa sett sig í samband við sig.

,,Ég fæ tal- og myndskilaboð frá þeim þar sem þeir óska mér góðs gengis, þeir biðji fyrir mér og biðja fyrir sigri. Það hvetur mig áfram."

Þá hafi forseti Úkraínu einnig sent honum kveðju.

,,Ef hann, sem forseti Úkraínu, hefði flúið land á fyrsta degi innrásarinnar þá hefði það haft mjög slæmar afleiðingar og tekið vonina frá úkraínsku þjóðinni. Hann fór ekki og það hvetur okkur áfram til að standa keik og veita mótspyrnu.

Ég er viss um að ef einhver annar hefði verið forseti á þessari stundu, þá hefðum við ekki færst í jákvæðari átt eins og hefur verið raunin núna."