Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, fær fjórar milljónir punda eða um 650 milljónir íslenskra króna í sinn hlut ef England vinnur HM í Katar.

Það er tæplega þrefalt hærri upphæð en Southgate hefði fengið ef Englandi hefði tekist að vinna HM í Rússlandi á fyrsta stórmóti liðsins undir stjórn Southgate.

Samningur Southgate sem gildir út EM 2024 inniheldur klásúlu um fjögurra milljón punda bónusgreiðslu ef England verða Heimsmeistarar undir hans stjórn. Fyrir er hann með sex milljónir punda í árslaun.

Fyrrum miðvörðurinn er að fara að stýra enska landsliðinu á sínu þriðja stórmóti. Undir stjórn Southgate komst England í undanúrslit HM 2018 og úrslit EM 2020.

England er í riðli með Wales, Íran og Bandaríkjunum í riðli á HM og þykir eitt af sigurstranglegustu liðum mótsins.