Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal segist vilja hafa franska miðvörðinn William Saliba í leikmannahópi liðsins á næsta tímabili. Saliba hefur lítið spilað fyrir Arsenal síðan að hann gekk til liðs við félagið og á nýafstöðnu tímabili var hann á láni hjá franska úrvalsdeildarliðinu Marseille þar sem að hann var valinn besti ungi leikmaður deildarinnar og var valinn í lið tímabilsins.

,,Hann þarf að koma aftur til okkar. Hann er með reynsluna og umhverfið til þess að berjast um sæti hjá okkur," sagði Arteta í samtali við RMC Sport.

Saliba var byrjunarliðsmaður hjá Marseille en Arteta segir að tækifæri hans hefðu verið af skornum skammti hefði hann verið hjá Arsenal á nýafstöðnu tímabili.

,,Ef hann hefði verið hjá okkur og barist um sæti í liði með Ben White og Gabriel í hverri viku í ensku úrvalsdeildinni hefði hann ekki einu sinni fengið helming þess spilatíma sem hann fékk hjá Marseille. Það er alveg öruggt.

,,Það hefði ekki verið gott fyrir þróun hans sem knattspyrnumaður. William var ekki með okkur vegna þess að hann hefði ekki fengið nægilega mikinn spilatíma til þess að öðlast reynslu," sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal í samtali við RMC Sport.

Leikjafjöldi Arsenal eykst á næsta tímabili þar sem að liðið mun taka þátt í Evrópudeildinni.