Paris Saint Germain og argentínski knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino hafa komist að samkomulagi um að binda enda á samstarf sitt. Samkvæmt frétt L'Equipe um málið mun Pochettino fá um 10 milljónir evra í sinn hlut, því sem jafngildir rúmum 1,3 milljarði íslenskra króna.

Pochettino var með samning við Paris Saint-Germain til ársins 2023 en forráðamenn félagsins vilja nýjan mann í brúnna eftir það sem telst lélegur árangur stjörnu prýdda knattspyrnuliðsins undir stjórn Pochettino.

Forráðamenn félagsins greindu frá því þann 10. júní síðastliðinn að Pochettino yrði ekki við stjórnvölinn á næsta tímabili.

Eftir nokkuð langar viðræður komst félagið að samkomulagi við Pochettino um að borga honum 10 milljónir evra til þess að binda enda á samning hans nú þegar. Talið er að forráðamenn félagsins séu nú þegar búnir að ákveða arftaka hans. Það ku vera Christophe Galtier.