Bakvörðurinn Dion Waiters er í þeirri einstöku stöðu að hann er búinn að tryggja sér meistarahring áður en úrslit NBA-deildarinnar hefjast í nótt.

Óvíst er hvort að Waiters taki mikinn þátt í úrslitarimmunni á milli Los Angeles Lakers og Miami Heat. Waiters hefur ekkert komið við sögu í undanförnum átta leikjum Lakers og lék síðast rúmar tvær mínútur í leik tvö gegn Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Waiters hóf tímabilið í liði Miami Heat en kom lítið við sögu á fyrstu mánuðum tímabilsins vegna vandræða í einkalífinu. Í upphafi tímabils var hann settur í tímabundið agabann vegna brota á reglum liðsins.

Mánuði síðar fékk Waiters taugaáfall á leiðinni í leik eftir að hafa gætt sér á gúmmíböngsum sem innihéldu marijúana og var honum gert að sitja hjá í tíu leiki. Mánuði síðar var hann aftur kominn í agabann eftir að hafa hringt sig inn veikan en haldið afmælispartý á sama tíma.

Á þessum erfiðu mánuðum í liði Miami tókst Waiters að koma við sögu í þremur leikjum áður en honum var skipt til Memphis Grizzlies. Memphis leysti Waiters undan samningi þremur dögum síðar og var honum því frjálst að semja við Los Angeles Lakers.

Waiters kom við sögu í sjö leikjum undir lok tímabilsins og fimm af fyrstu sjö leikjum Lakers í úrslitakeppninni en hefur ekkert komist inn á völlinn í undanförnum átta leikjum.

Ef Lakers tekst að vinna meistaratitilinn í ár er Waiters því NBA-meistari í fyrsta sinn en takist Miami Heat að vinna Lakers í einvíginu getur Waiters átt von á meistarahring frá Miami.

Hann er því búinn að tryggja sér meistarahring í fyrsta sinn en óljóst er hvort að hann taki honum með bros á vör eða fýlusvip.