Kalidou Koulibaly, landsliðsmaður Senegal, sendi liðsfélaga sínum hjá Chelsea og leikmanni enska landsliðsins, Raheem Sterling, skilaboð eftir að sá síðarnefndi fékk afar leiðinleg tíðindi í gær.

Sterling var ekki með Englandi gegn Senegal á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær þar sem hann hafði fengið veður af innbroti á heimili sínu.

Betur fór en á horfðist. Unnusta Sterling, Paige Milian, og börn þeirra voru ekki heima þegar innbrotið átti sér stað.

„Þetta kemur mér á óvart. Ég vona að fjölskyldan sé í lagi. Ég mun hringja í hann og spyrja hvað gerðist. Ég vona að hann og fjölskylda hans verði í góðu lagi,“ segir Koulibaly við fjölmiðla.

Leikurinn í gær var liður í 16-liða úrslitum HM. Mörk Englands skoruðu þeir Jordan Henderson, Harry Kane og Bukayo Saka.

Með sigrinum í gær komst England í 8-liða úrslit. Þar verður andstæðingurinn Frakkland á laugardagskvöld.