Tobi Amusan er heimsmeistari í 100 metra hindrunarhlaupi kvenna eftir að hafa sigrað á HM í Eugene. Hún bætti um leið heimsmet.

Amusan hljóp á 12,12 sekúndum. Þar með bætti hún fyrra heimsmet um einn tíunda úr sekúndu.

Amusan segir sögu sína við BBC. „Foreldrar mínir eru báðir kennarar. Þau eru mjög ströng,“ segir hin nígerska Amusan.

„Þegar þú elst upp í svoleiðis fjölskyldu þá láta þau þig einbeita þér að skólanum. Af því ég er kvenmaður héldu þau að ég myndi fara út af sporinu og missa sjónar á því öllu saman,“ segir Amusan um ákvörðun sína um að stunda spretthlaup.

Mamma hennar var hins vegar stuðnigsrík þegar kom að íþróttinni. „Mamma sagði pabba að ég væri að fara í kirkju svo ég gæti laumast á æfingu. Hún sagði honum að ég væri að taka þátt í ræðukeppni þegar ég var að ferðast til að keppa.“

Eitt sinn komst faðir hennar að hvað gekk í raun og veru á. „Hann varð mjög reiður og brenndi öll æfingafötin mín.“

Þrátt fyrir allan þann árangur sem Amusan hefur náð síðustu ár er pabbi hennar ekki enn fullkomlega stuðningsríkur. „Honum finnst meira til lífsins koma en að hlaupa. Þegar ég hringi í hann fyrir keppni segir hann mér bara að gera mitt besta og guð hjálpi mér, ekki meira en það.“

Amusan á erfitt með að átta sig á þeim gífurlega árangri sem hún hefur náð. „Ég er ekki enn búin að ná utan um þetta. Kannski er það bara því þetta er svo umfangsmikið og ég mun átta mig á þessu seinna meir,“ segir Tobi Amusan, heimsmethafi í 100 metra grindahlaupi.

Nánar er rætt við Amusan á vef BBC.