Ísland hefur í dag leik í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta karla en fyrsti mótherji íslenska liðsins í milliriðlinum verður Sviss sem komst óvænt inn í mótið á síðustu stundu eftir að Bandaríkjamenn þurftu frá að hverfa vegna kórónaveirusmits.

Frakkland og Noregur verða einnig andstæðingar Íslands, Portúgals og Alsírs í milliriðlinum en tvö lið af sex komast áfram í átta liða úrslitin.

Ísland á enn möguleika á að komast upp úr milliriðlinum með góðum úrslitum en Bjarni Fritzson, handboltaþjálfari og fyrrverandi landsliðsmaður, sagði spennandi að sjá íslenska liðið takast á við bestu lið heims sem léku til úrslita á HM árið 2017 þegar Fréttablaðið leitaði álits hjá honum.

„Þetta er alveg skuggalegur milliriðill með tveimur af bestu liðum heims undanfarin ár í Frakklandi og Noregi. Við vorum heppin með riðil í fyrstu þó að það sé alltaf sérkennilegt að mæta liðum sem þú veist lítið um en strákarnir leystu það mjög vel. Nú fá þeir tækifæri að bera sig saman við bestu lið heims og bestu leikmenn heims til að sjá hvar þeir standa og þeir þurfa ekkert að vera neitt smeykir.“

Bjarni segist upplifa mikinn samhug í íslenska liðinu á mótinu.

„Mér finnst allir strákarnir ótrúlega vel samstilltir og gíraðir inn á þessu móti og með því hefur breiddin aukist. Það eru þó nokkrir ungir strákar í bland við reynslubolta og það myndast gott jafnvægi í liðinu. Mín tilfinning er að við höfum núna engu að tapa og sjáum hvað gerist. Ungu strákarnir hafa margir verið í stórum hlutverkum með liðum sínum hérna heima og með unglingalandsliðinu. Þeir eru ekkert litlir í sér og fara með sigurvilja og sigurhugarfar inn í alla leiki sem er akkúrat það sem oft þarf til. Það er því tilhlökkun að sjá þá takast á við þetta verkefni. Leikurinn gegn Sviss er algjör lykilleikur með það hvaða væntingar maður hefur til framhaldsins.“