Leikmenn þýska landsliðsins í knattspyrnu munu hver um sig fá um 400 þúsund evrur í sinn hlut takist liðinu að vinna Heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram í Katar síðar á árinu.

Það jafngildir tæpum 56 milljónum íslenskra króna en þýska landsliðið er með bestu landsliðum heims og er sem stendur í 11. sæti heimslistans.

Bónusinn sem leikmenn fá takist liðinu að bera sigur úr býtum á HM hækkar um 50 þúsund evrur milli heimsmeistaramóta, bónusinn stóð í 350 þúsund evrum þegar mótið fór fram í Rússlandi. Þýskaland gerði engar rósir á því móti, féll úr leik í riðlakeppninni.

Komist Þýskaland núna upp úr riðlakeppninni munu leikmenn tryggja sér 50 þúsund evrur í bónusgreiðslu, tæpar sjö milljónir króna.

Fyrir hverja umferð sem liðið kemst lengra á mótinu bætast við 50 þúsund evrur í hvert skipti.

Tap í úrslitaleiknum sjálfum myndi þýða að leikmenn Þýskalands fengju 250 þúsund evrur í sinn hlut, tæpar 35 milljónir.