Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar gat ekki veitt sundfólki úr bænum styrk upp á 300 þúsund til að það gæti gert atlögu að því að komast meðal annars á Ólympíuleikana í Tókýó. Ráðið veitti þó 500 þúsund króna styrk til að Nettómótið í körfubolta gæti haldið veglegt lokakvöld en mótið er 30 ára í ár. Tölvan sagði einfaldlega nei.

Már Gunnarsson, ein stærsta íþróttastjarna landsins og handhafi Kristalkúlunnar, er mjög líklegur til árangurs á Ólympíuleikum fatlaðra. Hann hefur verið í frábæru formi að undanförnu, sló til að mynda tíu Íslandsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í september. Sundráð Íþróttabandalags Reykjanesbæjar vildi styrkja Má í undirbúningi hans fyrir Evrópumeistaramótið í 50 metra laug og Ólympíuleikana ásamt þeim Karen Mist Arngeirsdóttur og Evu Margréti Falsdóttur en báðar stefna þær hátt og eru titlaðar afrekssundmenn innan ÍRB.

Reglur íþrótta- og tómstundaráðs eru þó þannig að æfingaferðir falla ekki undir reglur sjóðsins og fengu þau því synjun.

Nettómótið fékk afmælisgjöf frá Reykjanesbæ upp á 500 þúsund til að halda glæsilegt lokakvöld.

Það voru þó til 500 þúsund krónur til að styrkja 30 ára afmælismót eins stærsta körfuboltamóts landsins á sama fundi. Í bréfi til ráðsins segir að mótið hafi gengið vel, það sé haldið með góðum styrk frá Nettó og Reykjanesbær hafi lánað út öll íþróttamannvirki, sem og grunnskóla til gistingar fyrir iðkendur en um 1.300 frá 25 liðum mættu á síðasta mót.

Fjölmörg önnur fyrirtæki í Reykjanesbæ komi einnig að mótinu með beinum og óbeinum styrkjum. Gríðarleg sjálfboðavinna fer fram í kringum mótið við undirbúning, dómgæslu, mótstjórn, aðstöðu- og veitingamál og hefur allur ágóði runnið beint í barna- og unglingastarf Keflavíkur og Njarðvíkur. Það sé mikilvæg tekjulind fyrir starfið.

Til að gera mótinu hátt undir höfði, sem glæsilegast og veglegast, þarf mótið fjárstyrk og veitti ráðið því 500 þúsund krónur og kallaði það afmælisgjöf. „Það á að bæta einhverju við bæði í opnunarhátíðina og við lokakvöldið,“ segir Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi. Eva Stefánsdóttir, formaður ráðsins, baðst undan svörum í síma, vildi fá spurningar í tölvupósti.

Ómar Jóhannsson, formaður sundráðs ÍRB, segir synjunina vissulega vonbrigði því það sé vilji til að gera vel við afreksfólk á Ólympíuári. „Þetta eru sterkir sundmenn og eru að vinna til verðlauna og gera frábæra hluti. Okkur langaði að fara þessa ferð því árangur kostar sitt.“ Ómar ítrekar að hann sé ánægður með að Nettómótið fái styrk enda sé Reykjanesbær titlaður íþróttabær og sundráðið eigi í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld.