Karlalandsliðið í knattspyrnu fékk 0-5 skell gegn Spáni í gær en með því hefur karlalandsliðið fengið á sig 34 mörk í sautján leikjum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar eða tvö mörk að meðaltali í leik.
Við það bætist leikur þar sem Arnar stýrði liðinu til bráðabirgðar þar sem Ísland tapaði 1-2 gegn Belgíu.
Arnar tók við liðinu undir lok árs 2021 og olli frammistaða liðsins vonbrigðum í síðustu undankeppni þar sem Ísland vann aðeins tvo leiki af tíu. Báðir sigrarnir komu gegn Liechtenstein.
Þetta var sautjándi leikur liðsins síðan Arnar tók við liðinu í árslok 2020 og hefur Ísland unnið þrjá leiki af sautján. Í þessum sautján leikjum hefur Ísland skorað nítján mörk eða rúmlega eitt mark að meðaltali í leik.
Varnarleikurinn hefur á köflum ekki verið til eftirbreytni en Ísland hefur fengið 34 mörk á sig eða tvö mörk að meðaltali í leik.
Til samanburðar var Ísland með 40 mörk skoruð og 29 mörk fengin á sig í 26 leikjum undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.
Næsta verkefni karlalandsliðsins eru leikir gegn Ísrael og Albaníu í Þjóðadeildinni en það er ár í að næsta undankeppni fyrir stórmót hefjist.
Núverandi þjálfarateymi er með samning út undankeppni EM 2024
Leikir undir stjórn síðustu þriggja þjálfara:
Arnar Þór Viðarsson:
17 leikir, nítján mörk skoruð, 34 fengin á sig
1 leikur sem bráðabirgðarþjálfari, 1 mark skorað, tvö fengin á sig.
Erik Hamrén:
28 leikir, 29 mörk skoruð, 50 mörk fengin á sig
Heimir Hallgrímsson:
26 leikir, 40 mörk skoruð, 29 fengin á sig