Að­eins sex keppnir eru eftir af tíma­bilinu í For­múlu 1 og Max Ver­stappen, ríkjandi heims­meistari öku­manna og liðs­maður Red Bull Ra­cing er ná­lægt því að tryggja sér sinn annan heims­meistara­titil. Það er nóg um að vera í heimi mótaraðarinnar og hér fyrir neðan verður farið yfir helstu fréttir/sögu­sagnir tengdar For­múlu 1.

  • Max Verstappen sigraði kappakstur helgarinnar á Monza, heimavelli Ferrari og er það í fyrsta skipti á hans Formúlu 1 ferli sem hann endar á verðlaunapalli í Monza. Með sigri og hagstæðum úrslitum gæti hann tryggt sér heimsmeistaratitil ökumanna í Singapúr á næstu keppnishelgi.
  • Kappakstur helgarinnar í Monza hefur enn á ný vakið upp spurningarmerki varðandi regluverkið sem til er í kringum öryggisbíla í mótaröðinni. Keppni lauk fyrir aftan öryggisbíl á Monza um helgina og er sú ákvörðun algjörlega á öndverðum meiði við ákvörðunina sem var tekin í kappakstrinum sögulega á Abu Dhabi á síðasta tímabili. Mohammed Ben Sulayem, forseti FIA á fund með keppnisstjórnendum og liðsstjórum liðanna í Formúlu 1 í dag og er talið líklegt að kröfur um skýrt regluverk hvað þetta varðar verði sett á.
  • Nick De Vries, 27 ára gamall ökumaður Williams-Mercedes vann sig í gær inn í hug og hjörtu F1 áhugafólks með því að skila Williams bílnum í stigasæti á Monza eftir að hafa stokkið inn með skömmum fyrirvara og leyst af hólmi Alexander Albon sem þjáist af botnlangabólgu. Um var að ræða fyrsta kappakstur De Vries í Formúlu 1 og náði hann um leið að skáka Nicholas Latifi, liðsfélaga sínum sem hefur til þessa ekki náð í stig á tímabilinu. Kallað er eftir því að De Vries fái í framhaldinu sæti hjá liðinu í stað Latifi en ljóst er að önnur lið gætu horft hýru auga til Hollendingsins
De Vries stóð sig frábærlega í frumraun sinni í gær
Fréttablaðið/GettyImages
  • Nico Hulkenberg gæti verið að snúa aftur í Formúlu 1 en í dag greinir Motorsport.com frá því að Formúlu 1 lið Haas íhugi það nú alvarlega að gera hann að ökumanni liðsins fyrir næsta tímabil í stað Mick Schumacher. Það virðist vera eitt verst geymda leyndarmálið í Formúlu 1 þessa dagana að Schumacher sé á förum frá Haas og hefur Guenther Steiner, liðsstjóri Haas átt í viðræðum við Hulkenberg sem og Antonio Giovinazzi. Hulkenberg er margreyndur ökumaður í Formúlu 1 og keyrði á sínum tíma fyrir lið á borð við Renault sem og Force India sem varð síðan að Racing Point. Hulkenberg hefur einnig verið orðaður við Alpine.
Nico Hulkenberg
Fréttablaðið/GettyImages