Alþjóða akstursíþróttasambandið hefur frestað fyrirhugaðri veitingu skírteina til liða í Formúlu 1 fyrir að hafa haldið sig undir kostnaðarþaki mótaraðarinnar fram á mánudag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá FIA sem segir langt og flókið ferli við að fara í gegnum gögn um fjárhagsgögn liðanna valda þessu.

Þessi yfirlýsing eykur bara spennuna um það hvort eitthvað lið hafi rofið kostnaðarþakið, reglugerð sem var sett á fyrir síðasta tímabil. Orð­rómur er uppi um að Aston Martin og Red Bull Ra­cing, lið ríkjandi heims­meistarans Max Ver­stappen hafi rofið kostnaðar­þakið og sam­keppnis­aðilarnir vilja að liðunum sé refsað.

FIA segist meðvitað um þá orðróma sem eru á kreiki og segist ekki ætla að tjá sig meira um málið en segir orðróma um að starfsfólk sambandsins hafi leikið viðkvæmum upplýsingum ekki á rökum reista.

Sky Sports heldur því fram í morgun að minni­háttar brot á kostnaðar­þaki For­múlu 1, yfir eyðsla um minna en fimm prósent, hafi verið framin á síðasta tíma­bili. Ekkert lið muni hins vegar hljóta al­var­lega refsingu fyrir það brot.

Kostnaðar­þakið í For­múlu 1 nemur 145 milljónum Banda­ríkja­dala og mega liðin ekki eyða meir en það sem því nemur. Þau lið sem héldu sig undir kostnaðar­þakinu munu í dag fá viður­kenningu á því af­reki sínu frá FIA í dag og að sama skapi kemur í það í ljós hvort eitt­hvað lið hafi rofið þakið.

Hægt er að lesa nánar um málið og mögulega framvindu þess með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan: