Uppfært klukkan 15:16 - 5. október: Alþjóða akstursíþróttasambandið hefur frestað fyrirhugaðri veitingu skírteina til liðs í Formúlu 1 fyrir að hafa haldið sig undir kostnaðarþaki mótaraðarinnar fram á mánudag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá FIA sem segir langt og flókið ferli við að fara í gegnum gögn um fjárhagsgögn liðanna valda þessu.

Það má með sanni segja að augu For­múlu 1 búbblunnar beinist að Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandinu (FIA) í dag en sam­bandið mun opin­bera hvaða lið náðu að halda sig undir kostnaðar­þaki For­múlu 1 mótaraðarinnar á síðasta tíma­bili. Orð­rómur er uppi um að Aston Martin og Red Bull Ra­cing, lið ríkjandi heims­meistarans Max Ver­stappen hafi rofið kostnaðar­þakið og sam­keppnis­aðilarnir vilja að liðunum sé refsað.

Sky Sports heldur því fram í morgun að minni­háttar brot á kostnaðar­þaki For­múlu 1, yfir eyðsla um minna en fimm prósent, hafi verið framin á síðasta tíma­bili. Ekkert lið muni hins vegar hljóta al­var­lega refsingu fyrir það brot.

Kostnaðar­þakið í For­múlu 1 nemur 145 milljónum Banda­ríkja­dala og mega liðin ekki eyða meir en það sem því nemur. Þau lið sem héldu sig undir kostnaðar­þakinu munu í dag fá viður­kenningu á því af­reki sínu frá FIA í dag og að sama skapi kemur í það í ljós hvort eitt­hvað lið hafi rofið þakið.

Þetta markar margra mánaða vinnu af hálfu FIA þar sem kafað hefur verið í árs­upp­gjör liðanna í For­múlu 1 þar sem full­trúar þeirra hafa meðal annars verið beðnir um að gefa skýrslu.

Síðasta tíma­bil í For­múlu 1 fer í sögu­bækurnar sem eitt mest spennandi, ef ekki mest spennandi tíma­bil í sögu mótaraðarinnar. Að sama skapi hlaut tíma­bilið mjög um­deildan endi sem varð til þess að Max Ver­stappen tryggði sér heims­meistara­titil öku­manna á síðasta hringnum í síðustu keppni tíma­bilsins með fram­úr­akstri á Sir Lewis Hamilton sá var hárs­breidd frá því að tryggja sér sinn áttunda heims­meistara­titil sem hefði verið met í fjölda heims­meistara­titla í For­múlu 1.

Baráttan milli Hamilton og Verstappen á síðasta tímabili fer í sögubækurnar
Fréttablaðið/GettyImages

Formúla 1 á krossgötum

Á vefmiðlinum Motor­sport, virtum miðli innan akstur­s­í­þrótta­sam­fé­lagsins segir að For­múla 1 standi nú á kross­götum sem getur haft miklar af­leiðingar fyrir lang­tíma­fram­tíð mótaraðarinnar. Verði stigið vit­laust niður til jarðar gæti það markað enda­lok kostnaðar­þaksins.

Það er ekki langt síðan að til­­lögur For­múlu 1 um kostnaðar­þak í móta­röðinni voru kynntar og teknar í gildi og því eru á­kveðnar raddir uppi um að fara ætti var­lega í að refsa liðum fyrir mögu­leg brot þar sem reynslu­tíminn á fyrir­komu­laginu hefur ekki verið mikill. Aðal rökin fyrir kostnaðar­þakinu voru þau að með því að setja þak á eyðslu liðanna stæðu þau á jafnari grunni sem ætti síðan að skila sér í jafnari bílum og keppnum.

Red Bull Racing er borið þungum sökum. Verstappen og Christian Horner, liðsstjóri liðsins fagna hér titli síðasta tímabils
Fréttablaðið/GettyImages

Það má í raun segja að komið sé að frum­raun FIA og For­múlu 1 hvernig verði tekið á brotum ef lið hafa gerst sek um að hafa rofið kostnaðar­þakið. Á að stíga fast til jarðar eða rétt skamma þá brot­legu og gefa þar með for­dæmi fyrir því að smá brot verði liðin.

Með því að stíga fast til jarðar er mögu­leiki á því að bæta á öng­þveitið og ó­á­nægjuna sem blossaði upp eftir síðasta tíma­bil. Jafn­vel minni­háttar brot á reglum um kostnaðar­þakið í For­múlu 1 geta leitt af sér að stig verði dregin af liðum og öku­mönnum. Þá er hægt að dæma um­rædd lið úr keppni á á­kveðnum stigum.

Einnig eru heimildir fyrir því að tak­marka prófanir liðanna sem og lækka þá upp­hæð sem liðin þurfa að halda sig undir hvað kostnaðar­þakið varðar.

Meiri­háttar brot fela í sér allt ofan­greint en þá þurfa lið að hafa eytt yfir fimm prósentum meira en því sem kostnaðar­þakið nemur. Meiri­háttar brot geta einnig falið í sér ó­gildingu á úr­slitum á heilu tíma­bili sem og bann frá keppni.

Vill að gripið sé til harðra aðgerða

Það eru full­trúar Ferrari og Mercedes, helstu sam­keppnis­aðila Red Bul Ra­cing sem hafa haft hæst í þessu máli.

Toto Wolff, liðs­stjóri Mercedes krefst þess að gripið verði til harðra að­gerða ef Red Bull Ra­cing hefir rofið kostnaðar­þakið. Ef það er stað­reyndin hafi það orðið til þess að liðið hafði for­skot bæði í fyrra sem og núna í ár.

Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari og Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes funduðu stíft saman í Singapúr um síðastliðna helgi
Mynd: Skjáskot

Fram­haldið í móta­röðinni ræðst seinna í dag og for­vitni­legt verður að sjá hver fram­vindan verður.