Sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir tilkynnti það í tilfinningaþrunginni færslu á facebook-síðu sinni í dag að hún sé hætt keppni. Eygló Ósk var valinn íþróttamaður ársins árið 2015 en hún keppti á tveimur Ólympíuleikum á glæstum ferli sínum.

Eygló Ósk sem er aðeins 25 ára gömul nú þegar sundhettan er komin upp í hillu hefur glímt við meiðsli í baki undanfarin ár. Árið 2015 varð hún fyrsta íslenska sundkonan til þess að vinna til verðlauna á stórmóti þegar hún hreppti tvenn bronsverðlaun á Evrópumótinu í 25 metra laug.

Þá keppti hún sama ár til úrslita á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug. Eygló Ósk keppti á Ólympíuleikum í í London árið 2012 og síðan í Ríó árið 2016. Á leikunum í Ríó synti hún til úrslita í 200 metra baksundi fyrst íslenskra sundkvenna. Hún á fjölda Íslandsmeta og nokkur Norðurlandamet.