Úrslitaleikur Evrópumótsins fer fram í dag, þar sem meistari verður krýndur fyrir framan smekkfullan Wembley-leikvang í Lundúnum.

Í leiknum munu heimakonur í Englandi etja kappi við Þýskaland.

Leiðir liðanna

England fór örugglega upp úr sínum riðli, þar sem með þeim voru Austurríki, Noregur og Norður-Írland. England vann alla leikina, samanlagt með markatölunni 14-0. Liðið vann Noreg til að mynda 8-0.

Þegar í 8-liða úrslit var komið var andstæðingurinn Spánn. Þar þurftu þær ensku að hafa fyrir hlutunum. Lokatölur urðu 2-1 eftir framlengdan leik.

Í undanúrslitum vann England svo öruggan 4-0 sigur á Svíþjóð.

Þýskaland fór þægilega upp úr sínum riðli með Dönum, Spánverjum og Finnum. Liðið vann alla sína leiki með markatölunni 7-0.

Í 8-liða úrslitum var Austurríki svo andstæðingurinn. Þar unnu þær þýsku 2-0 sigur.

Í undanúrslitum vann Þýskaland svo 2-1 sigur á stórliði Frakka.

Ógnarsterkar varnir

Bæði lið hafa aðeins fengið á sig eitt mark á öllu mótinu, England í 8-liða úrslitum gegn Spánverjum og Þýskaland í undanúrslitum gegn Frökkum.

Smekkfullur völlur

Wembley tekur 90 þúsund manns í sæti. Það er uppselt á leikinn. Það má því búast við gífurlegri stemningu í Lundúnum í dag.

Heimakonur aðeins sigurstranglegri

Samkvæmt helstu veðbönum er aðeins líklegra að England fari með sigur af hólmi frá leiknum, þó alls ekki afgerandi.

Sagan með Þjóðverjum í liði

Þjóðverjar hafa átta sinnum orðið Evrópumeistarar. Þær slepptu titlinum ekki frá sér frá 1995 til 2013, magnaður árangur. England hefur hins vegar aldrei unnið stórmót.