Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag að veita styrk upp á fimm milljónir króna til Fimleikasambands Íslands í aðdraganda Evrópumótsins í hópfimleikum sem fer fram í Lúxemborg. Kvennalið Íslands hefur titil að verja.

Kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráði að tillaga hafi borist frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra um styrkveitinguna.

Hluti upphæðinnar fer í að koma upp aðstöðu í Smáralind þar sem gestir og gangandi geta fylgst með liðum Íslands á EM í hópfimleikum ásamt því að kynnast starfi Fimleikasambandsins.

Keppnin hefst í næstu viku en íslenska kvennaliðið varð Evrópumeistari og karlaliðið vann til silfurverðlauna á Evrópumóti síðasta árs.