Karlalandsliðið í handbolta leikur tvo æfingarleiki gegn ríkjandi Evrópumeisturum Spánar í handbolta í næsta mánuði.

Fram kom í fundargerð stjórnar HSÍ í byrjun febrúar að Spánverjar væru áhugasamir. „A landslið karla er með boð frá Spáni um leiki í apríl,“ stendur í fundargerðinni.

Formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að liðin myndu mætast ytra í næsta mánuði.

Strákarnir okkar hafa mætt Spáni 47. sinnum og eru tíu ár liðin frá síðasta sigri Íslands, 30-27 sigri á Evrópumótinu 2010.

Spánverjar vörðu Evrópumeistaratitil sinn fyrr á þessu ári en hafa ekki náð að sýna sömu takta á HM þar sem sjö ár eru síðan Spánverjar unnu til gullverðlauna.

Næsta verkefni karlalandsliðsins er undankeppni HM sem hefst í júní en Spánverjar eru á fullu að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Tókýó.