Evrópuævintýri Víkings Reykjavíkur þetta árið er lokið eftir 4-1 tap liðsins gegn Lech Poznan í síðari leik liðanna í Sambandsdeildinni í kvöld. Leikur kvöldsins fór alla leið í framlengingu en því miður fer Poznan með 4-2 sigur úr einvíginu en leikið var í Póllandi í kvöld.

Víkingar unnu fyrri leikinn 1-0 og hefðu vel geta aukið forystu sína í fyrri hluta fyrri hálfleiks í kvöld. Ákjósanleg færi fóru í súginn.

Það voru síðan heimamenn sem fóru að stíga fastar á bensíngjöfina og á 32. mínútu lét undan. Þá kom framherjinn stóri og stæðilegi Mikael Ishak, Lech Poznan yfir.

Það leið ekki að löngu þar til heimamenn tvöfölduðu forystu sína. Það gerði Kristoffer Velde rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og Lech Poznan því komið yfir í einvíginu í fyrsta skipti.

Þannig stóðu leikar allt þar til á lokasekúndum leiksins þegar leikurinn virtist vera að fjara út og áður höfðu heimamenn fengið fjölmörg tækifæri til þess að gera út um einvígið en Ingvar Jónsson var virkilega öflugur í markrammanum hjá Víkingum.

Þá náðu Víkingar að sækja hratt undir blálokin og boltinn barst á varamanninn Daniel Dejan Djuric sem kom boltanum í netið og tryggði Víkingum framlengingu. Hreint út sagt ævintýralegar senur.

Því miður tóku hlutirnir fljótt stefnu til hins verra þegar komið var í framlengingu því að á 96. mínútu kom Filip Marchwinski, Lech Poznan aftur yfir í einvíginu eftir stoðsendingu frá Michal Skóras.

Heimamenn fengu síðan vítaspyrnu á 117. mínútu en Ingvar Jónsson varði spyrnu Alfonso Sousa. Það tók hann hins vegar stutta stund að bæta upp fyrir mistökin því aðeins einni mínútu síða bætti hann við fjórða marki Poznan í leiknum og gulltryggði sigur liðsins í einvíginu.

Víkingar eru því úr leik í Sambandsdeildinni þrátt fyrir hetjulega baráttu. Lech Poznan heldur áfram í næstu umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar.