Undankeppni Meistaradeildar Evrópu hefst á morgun. Þar taka bæði Valur og Breiðablik þátt.

Til að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þarf að komast í gegnum tvö stig undankeppninnar.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að leikið er í fjögurra liða riðlum, þar sem sigurvegarinn fer áfram í næstu umferð.

Valur mætir Hayasa frá Armeníu. Pomurje Beltinci frá Slóveníu og Shelbourne frá Írlandi eru einnig í riðlinum og mætast í hinum undanúrslitaleiknum. Sigurvegarnir mætast svo í úrslitaleik um sæti í annari umferð á sunnudag.

Lið Breiðabliks.
GettyImages

Breiðablik mætir Rosenborg. Sigurvegarinn úr leiknum mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi eða Slovacko frá Tékklandi á sunnudag.

Alls komast sextán lið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Breiðablik tók þátt á því stigi keppninnar í fyrra.

Leikur Vals og Hayasa fer fram í Slóveníu, sem og allir leikir þess riðils, og hefst hann klukkan 9 í fyrramálið. Breiðablik og Rosenborg mætast klukkan 16 í Þrándheimi í Noregi. Sá riðill fer fram þar í landi.