Everton staðfesti í dag að félagið hefði ráðið til sín Grétar Rafn Steinsson sem yfirnjósnara félagsins í Evrópu.

Grétar Rafn var búinn að vinna í tæp fjögur ár sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood.

Mun hann verða yfirnjósnari félagsins í Evrópu og vinna náið með Marcel Brands, yfirmanni knattspyrnumála hjá Everton.

Þeir þekkjast frá tíma Grétars hjá AZ Alkmaar í Hollandi en Grétar lék einnig með Bolton, Young Boys og Kayserispor á ferlinum.

Grétar lærði á sínum tíma í fótboltastjórnunarskóla Johans Cruyff í Hollandi og lék 43 leiki fyrir Íslands hönd.