Everton greindi frá því í dag að Gylfi Þór Sigurðsson væri einn þeirra leikmanna sem væru á förum frá félaginu í sumar þegar samningur hans við Everton rennur sitt skeið.

Með því lýkur fimm ára dvöl Gylfa í herbúðum Bítlaborgarfélagsins en hann var um tíma dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Cenk Tosun, Fabian Delph og Jonjoe Kenny eru einnig á förum frá Everton í sumar.

Gylfi var ekki í leikmannahópi Everton á nýafstöðnu tímabili eftir að hann var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi síðasta sumar.

Rannsókn málsins stendur enn yfir og er Gylfi í farbanni frá Englandi á meðan rannsókn stendur yfir.