Rafa Benítez, var í gær rekinn úr starfi knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarfélagsins Everton eftir magurt gengi liðsins á tímabilinu.

Verkefnið virtist dæmt til glötunar alveg frá byrjun en ráðningin þótti umdeild á sínum tíma sökum tengsla Benitez við erkifjendur Everton í Liverpool.

Benitez skilur við Everton í 16 .sæti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem að liðið er með 19 stig eftir 19 leiki.

Margir knattspyrnustjórar eru nú orðaðir við stjórastöðuna á Goodison Park. Meðal þeirra er Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Everton og núverandi knattspyrnustjóri Derby County. Rooney hefur gert flotta hluti með Derby í ensku B-deildinni við afar erfiðar aðstæður. Fjárhagsstaða Derby er mjög slæm, reyndar svo slæm að stig hafa verið dregin af félaginu.

Þá er kunnuglegt nafn á lista hjá forráðamönnum Everton en Roberto Martinez, fyrrum knattspyrnustjóri liðsins og núverandi þjálfari belgíska karlalandsliðsins er orðaður við endurkomu á Goodison Park.

Önnur nöfn sem hafa verið bendluð við stjórastöðuna hjá Everton eru Graham Potter, knattspyrnustjóri Brighton, Frank Lampard, fyrrum leikmaður og fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea sem og Nuno Espirito Santo, fyrrum knattspyrnustjóri Tottenham.