Fótbolti

Þetta var óásættanleg frammistaða í Sviss

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta beið sinn stærsta ósigur í 17 ár þegar það tapaði 6-0 fyrir Sviss í Þjóðadeildinni á laugardaginn. Óboðleg úrslit, segir Hörður Magnússon. Hann furðar sig á leikáætlun Íslendinga í leiknum í St. Gallen.

Birkir Bjarnason náði sér ekki á strik í leiknum í St. Gallen á laugardaginn, ekki frekar en aðrir leikmenn íslenska liðsins sem var kjöldregið. Fréttablaðið/EPA

Íslendingum var skellt harkalega niður á jörðina í fyrsta leiknum undir stjórn nýja landsliðsþjálfarans Eriks Hamrén. Sex núll tap fyrir Sviss í fyrsta leiknum í Þjóðadeildinni var niðurstaðan. Þetta er stærsta tap Íslendinga síðan þeir töpuðu 6-0 fyrir Dönum á Parken í október 2001.

„Þetta var óásættanleg frammistaða á allan hátt. Fyrir lið sem spilar á meðal þeirra bestu í Þjóðadeildinni eru þessi úrslit ekki boðleg. Þessi frammistaða hlýtur að vekja menn til umhugsunar,“ segir Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður og fyrrverandi landsliðsmaður.

Síðan Ísland tryggði sér sæti á HM með 2-0 sigri á Kósóvó í október í fyrra hefur liðið leikið tólf leiki og aðeins unnið tvo, vináttulandsleiki gegn slöku liði Indónesíu. Jafnteflin eru þrjú og töpin sjö.

„Spilamennskan fram að HM var slök. Mér fannst hún ekkert sérstök á HM en ekkert vond, nema í leiknum gegn Nígeríu,“ segir Hörður. Hann segist hafa óttast að það kæmi bakslag hjá íslenska liðinu eftir velgengni síðustu ára.

Sjá einnig: Kjöldregnir á Kybunpark

„Kannski er erfitt að kveikja neistann hjá leikmönnum aftur. Eftir að hafa komist á EM og í 8-liða úrslit þar og fylgja því eftir með því að vinna mjög erfiðan riðil í undankeppni HM og fara á stærsta sviðið gæti einhver sagt að það væri ekki hægt að gera betur. Strákarnir eru kannski komnir á vegg sem er ekkert óeðlilegt.“

Þrátt fyrir að hafa óttast bakslag segist Hörður ekki hafa búist við afhroðinu sem Ísland beið í St. Gallen.

„Það er ekki sama hvernig þú tapar leikjum. Uppgjöfin sem var í þessum leik var átakanleg. Ég hef ekki séð svona í langan tíma,“ segir Hörður. „Hvað voru menn að gera í þessum æfingabúðum? Fengu nokkra daga við bestu aðstæður. Og af hverju var engu breytt í hálfleik, þegar staðan var 2-0? Þetta kom mér á óvart og gefur ekki góð fyrirheit.“

Annað kvöld fær Ísland Belgíu, bronsliðið frá HM, í heimsókn. Hörður segir áhugavert að sjá hvaða breytingar Hamrén geri.

„Menn verða að halda einhverjum grunni og það er mikilvægt að menn örvænti ekki og geri hlutina enn verri. Ég held að þetta velti svolítið á því hvernig lykilmenn liðsins bregðast við.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Meiri harka í gríska boltanum

Fótbolti

Fyrrum lands­liðs­maður Gana í við­ræðum við Val

Fótbolti

Balotelli að semja við Marseille

Auglýsing

Nýjast

„Léttir að vinna loksins titil og fá ártal á vegginn“

„Setjum þetta í reynslubankann“

Helena: Magnað að vinna titilinn með Guðbjörgu

„Löngu kominn tími á að vinna titla“

„Góð tilfinning að vinna loksins titil með Val“

Vals­konur bikar­meistarar í fyrsta sinn

Auglýsing