Sport

Þetta gerðist þegar Frakkar og Króatar mættust síðast á HM

Einu landsliðsmörk Lillians Thuram tryggðu Frökkum sigur á Króötum í eina leik liðanna til þessa á heimsmeistaramóti. Þau mætast í úrslitaleik HM á sunnudaginn.

Lillian Thuram varð þjóðhetja í Frakklandi 8. júlí 1998. Fréttablaðið/Getty

Frakkar eiga góðar minningar frá eina leik sínum gegn Króötum í lokakeppni HM. Liðin mættust í undanúrslitum HM í Frakklandi 1998 þar sem heimamenn höfðu betur, 2-1. Liðin mætast í úrslitaleik HM 2018 á sunnudaginn.

Í upphafi seinni hálfleiks í leik Frakklands og Króatíu fyrir 20 árum kom Davor Suker Króötum yfir með sínu fimmta marki í keppninni. Rangstöðugildra Frakklands klikkaði og Lillian Thuram spilaði Suker réttstæðan.

Aðeins mínútu eftir mark Sukers, sem var það eina sem Frakkar fengu á sig í opnum leik á HM 1998, bætti Thuram upp fyrir mistökin og jafnaði metin.

Þegar 20 mínútur voru til leiksloka skoraði Thuram sigurmark Frakka með vinstri fótar skoti í fjærhornið. Mörkin gegn Króatíu voru hans einu fyrir franska landsliðið. Thuram lék alls 142 landsleiki á árunum 1994-2008 og er leikjahæstur í sögu franska landsliðsins.

Frakkar urðu svo heimsmeistarar eftir 3-0 sigur á Brasilíumönnum í úrslitaleiknum. Þeir fá tækifæri til að bæta öðrum heimsmeistaratitli í safnið á sunnudaginn.

Tölfræðin er allavega með Frökkum í liði. Þeir hafa mætt Króötum fimm sinnum; unnið þrjá leiki og gert tvö jafntefli. Liðin mættust síðast í vináttulandsleik í París fyrir sjö árum. Hann endaði með markalausu jafntefli.

Þrír af þeim 17 leikmönnum Frakka sem tóku þátt í leiknum gegn Króötum 2011 eru í franska hópnum í dag; Hugo Lloris, Adil Rami og Blaise Matuidi. 

Sjö í króatíska HM-hópnum tóku þátt í leiknum fyrir sjö árum; Vedran Corluka, Dejan Lovren, Luka Modric, Ivan Perisic, Ivan Strinic, Ivan Rakitic og Domagoj Vida.

Luka Modric á ferðinni í vináttulandsleik Króatíu og Frakklands. Fréttablaðið/Getty

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Enski boltinn

Fundarhöld um framtíð Sarri

Fótbolti

Kristján Flóki fer ekki til Póllands

Körfubolti

Martin: Hlynur er eins og jarðýta

Auglýsing

Nýjast

„Okkar að stíga upp þegar þessir tveir meistarar hætta“

Ragnarök í Víkinni á laugardaginn

Guðmundur gerði gott mót á Spáni

Mörkin úr sigri Íslands gegn Írlandi - myndskeið

Þróttur búinn að ráða þjálfara

Þrjár reyna við heimsleikana

Auglýsing