Samuel Eto'o, fyrrverandi leikmaður Barcelona, Inter og fleiri liða, ætlar að kaupa hús handa fyrrverandi fyrirliða kamerúnska landsliðsins sem er heimilislaus.

Norbert Owona lék með kamerúnska landsliðinu á 7. og 8. áratug síðustu aldar og var um tíma fyrirliði liðsins.

Hann þurfti að leggjast inn á spítala á dögunum. Eto'o heimsótti Owona og lofaði að kaupa handa honum hús. Hann lét hann einnig fá tæpar 100.000 krónur.

Owona hefur átt erfitt eftir að undanförnu. Hann er veikur, auralaus og hefur búið á götum Douala eftir að hann missti fjölskyldu sína. Hann hefur ítrekað biðlað til stjórnvalda um hjálp en án árangurs.

Owona er ekki sá eini sem er í þessari stöðu en margir kamerúnskir leikmenn hafa lent í hremmingum eftir að hafa lagt skóna á hilluna.

Eto'o, sem er 37 ára, er nýgenginn í raðir Qatar SC eftir að hafa leikið í Tyrklandi í þrjú ár.