Samuel Eto'o, fyrrum leikmaður Real Madrid, Barcelona, Chelsea, Inter og fleiri liða í Evrópu sem er í dag forseti knattspyrnusambands Kamerún, fékk í dag 22 mánaða dóm fyrir skattsvik. Haldi Eto'o skilorði þarf hann aldrei að sitja inni en hann segir sökina liggja hjá fyrrum umboðsmanni sínum.

Eto'o var um tíma einn besti framherji Evrópu og skoraði 108 mörk í 144 leikjum með Barcelona. Kamerúninn vann Meistaradeild Evrópu þrisvar, tvisvar með Barcelona og einu sinni með Inter.

Dómstóllinn komst að því að hann hefði reynt að koma 3,32 milljónum punda undan skatti sem hann fékk greitt fyrir ímyndarrétt sinn frá Puma og Barcelona með því að dreifa greiðslunum á reikninga í Ungverjalandi og Spáni.

Eto'o játaði brotið og greiddi sektina en segir sökina liggja hjá Jose Maria Mesalles, fyrrum umboðsmanni sínum.

Hann var fjórum sinnum valinn knattspyrnumaður Afríku og lenti í þriðja sæti í kosningu um besta leikmann heims árið 2005

Eto'o var kosinn forseti knattspyrnusambands Kamerún í lok síðasta árs.