Það varð ljóst í kvöld hvaða lið mætast í átta liða úrslitunum í Dominos-deild karla eftir að lokaumferðin kláraðist.

Deildarmeistarar Stjörnunnar mæta Grindavík á meðan Njarðvík mætir ÍR eftir sigur Breiðhyltinga á Grindavík í kvöld í hreinum úrslitaleik upp á sjöunda sætið.

Sigur Tindastóls á Keflavík þýðir að Stólarnir enduðu í þriðja sæti og mæta Þór Þorlákshöfn í úrslitakeppninni.

Að lokum er Keflavík með heimavallarréttinn gegn KR þegar liðin í 4. og 5. sæti deildarinnar mætast.

Úrslitakeppnin hefst eftir viku.