Stjarnan fær sannkallaðan stórleik gegn Espanyol ef Garðbæingum tekst að komast áfram gegn Levadia Tallinn í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar.

Garðbæingar mæta Levadia frá Eistlandi í fyrstu umferðinni og fer fyrri leikurinn fram á Samsung-vellinum þann 11. júlí næstkomandi. Takist Garðbæingum að komast áfram bíður þeirra einvígi gegn spænska félaginu Espanyol.

Espanyol sem leikur á velli sem tekur 40.500 manns í Barcelona komst í Evrópudeildina í fyrsta sinn í tólf ár síðan liðið tapaði úrslitaleik UEFA bikarsins árið 2007.

Fyrr í dag kom í ljós að Valur mætir AIK frá Svíþjóð eða Ararat-Armenia ef Valsmenn komast áfram gegn NK Maribor í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu.

Blikar sem voru heppnir með dráttinn í fyrstu umferð og mæta Vaduz frá Liechtenstein mæta Zeta frá Svartfjallalandi eða Fehervar frá Ungverjalandi ef þeir komast áfram.

KR sem fékk Molde frá Noregi í fyrstu umferð mætir Banants frá Armeníu eða Cukaricki frá Serbíu ef þeim tekst að slá norska félagið óvænt úr leik.