Knattspyrnumaðurinn Andrés „Manga“ Escobar, sem lék með Leikni Reykjavík síðasta sumar, hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot í Héraðsdómi Reykjavíkur. Kólumbíumaðurinn áfrýjaði dómnum en er í farbanni á meðan málið velkist um í dómskerfinu. Escobar var dæmdur fyrir að hafa þann 19. september brotið kynferðislega á konu á heimili sínu.
Þennan sama dag hafði Escobar tekið þátt í leik Leiknis og Keflavíkur og spilaði þar allan leikinn. Escobar er þrítugur knattspyrnumaður sem leikið hafði í Úkraínu, Argentínu, Brasilíu og fleiri löndum áður en hann kom til Íslands. Hann hafnar því að hafa brotið kynferðislega á konunni en segist hafa átt samræði við hana.
„Héraðssaksóknari höfðaði þann 22. desember sl. sakamál á hendur dómfellda fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. september 2021, á heimili sínu í Reykjavík, haft samræði og önnur kynferðismök við A, án hennar samþykkis, með því að sleikja kynfæri hennar og hafa við hana samræði, þar sem hún lá illa áttuð í sófa ákærða, og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar,“ segir í dómi Landsréttar þar sem Escobar er úrskurðaður í farbann til 1. september á þessu ári.
Escobar og lögmaður hans hafa áfrýjað dómi héraðsdóms en málið verður tekið fyrir í Landsrétti á næstu vikum.
Þremur dögum eftir að héraðssaksóknari höfðaði málið gegn Escobar lék hann sinn síðasta leik fyrir Leikni, um var að ræða leik gegn Víkingi í síðustu umferð efstu deildar karla árið 2021. Samningur Escobar við Leikni rann út á miðnætti þann 16. október á síðasta ári en í dómnum segir:
„Dómfelldi er erlendur ríkisborgari og var við störf hér á landi þar til samningur hans við atvinnurekanda rann út þann 17. október sl. Hann hefur engin önnur sérstök tengsl við landið og hefur greint frá því að hann hafi í hyggju að fara af landi brott. Til að tryggja nærveru hans á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum hér á landi, og eftir atvikum þar til afplánun hans hefst, þykir nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans er til lykta leitt. Er það mat héraðssaksóknara að ætla megi að dómfelldi muni reyna að komast úr landi ellegar reyna að koma sér með öðrum hætti undan yfirvöldum sé hann frjáls ferða sinna. Því telur ákæruvaldið lagaskilyrði uppfyllt til að hann sæti farbanni þar til endanlegur dómur gengur í máli hans.“
Escobar er dæmdur í tveggja og hálfs ár fangelsi fyrir kynferðisbrotið en hann hefur neitað sök og hefur áfrýjað dómi héraðsdóms til Landsréttar.